145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

kjör öryrkja.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæta fyrirspurn um mjög mikilvægt mál. Það er gott að hv. þingmaður skuli halda á lofti merkjum Öryrkjabandalagsins og þess málflutnings sem þar hefur verið viðhafður að undanförnu. Þetta er auðvitað þörf áminning til okkar allra, en þó er rétt að setja hlutina í samhengi. Það má ekki gleymast, þó að við gerum okkur öll grein fyrir því að það þurfi að gera betur og menn þurfi áfram að vinna að lausn þeirra mála sem hv. þingmaður taldi upp, að það er verið að stíga stærstu skref sem stigin hafa verið í rétta átt í þessum efnum um mjög langt skeið. Ég efast reyndar um að það hafi verið jafn mikil hækkun lífeyris á einu ári áður og gert er ráð fyrir á næsta ári. Um er að ræða tæplega 10% hækkun og gangi verðbólguspár eftir mun það að langmestu skila sér í auknum ráðstöfunartekjum þeirra sem taka við þessum greiðslum.

Ég er hins vegar meðvitaður um það og ríkisstjórnin öll, eins og eflaust allir þingmenn, að það mun áfram þurfa að bæta kjör þessa hóps. En til að við getum gert það þurfum við að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð, a.m.k. í tíð þessarar ríkisstjórnar, að halda áfram jafnt og þétt og setja meira í þennan málaflokk. Það hefur aldrei verið jafn mikið sett í félagsmál og núna á yfirstandandi ári og verður enn meira á því næsta. Þó að við séum meðvituð um að það vanti enn töluvert upp á þá verðum við líka að setja þetta í samhengi við að það hafa sjaldan eða aldrei verið tekin jafn stór skref í rétta átt og eru í vændum á nýju ári.