145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

umferð um friðlandið á Hornströndum.

[15:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég drap hér á í síðustu viku fregnir af því að það virðist sem síðastliðið sumar hafi verið stundað nokkuð að hleypa hópum ferðamanna af skemmtiferðaskipum inn í friðlandið á Hornströndum. Þetta er mikið áhyggjuefni vegna þess að friðlandið á Hornströndum er líklega ein af mestu náttúruperlum sem við eigum. Það hefur tekist bærilega að takmarka þann hóp fólks sem þar fer um og þokkalegt eftirlit hefur verið, að því er virðist, með umferð fólks um þetta svæði. Þess vegna er mikið áhyggjuefni ef það er rétt að þarna sé verið að hleypa nokkrum hópum ferðamanna úr skemmtiferðaskipum upp í Hornvík þar sem þeir fara um eftirlitslausir. Hættan er sú að svæðið þarna verði fyrir skaða sem er erfitt og jafnvel óframkvæmanlegt að laga aftur.

Þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi eða eigi yfir að ráða einhverjum úrræðum til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist, að stemma stigu við þessum flutningum ferðamanna eiginlega bakdyramegin inn í friðlandið. Nú geri ég mér grein fyrir því að þetta kann að vera á forræði fleiri ráðherra, hugsanlega hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fer með ferðamál og jafnvel innanríkisráðherra líka. Mig langar samt til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist eða geti gripið til einhverra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að þarna verði unnið tjón á friðlandinu og að umferð um það verði á sama hátt og verið hefur, þ.e. undir eftirliti og takmörkuð.