145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

umferð um friðlandið á Hornströndum.

[15:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að það sé augljóst að þarna þarf fólk að vinna saman og ekki hvað síst þarf ráðuneytið hjá mér að vinna vel með innanríkisráðuneytinu vegna þess að Samgöngustofa heyrir jú undir innanríkisráðuneytið og ég tel að skemmtiferðaskipin komi þar við sögu. Ég veit af því að Samgöngustofa telur sig samt ekki hafa ráð til þess að takmarka umferð þarna.

Svo skemmtilega vill til að í þessum mánuði sendi Ágúst Ágústsson hjá Faxaflóahöfnum mér langt bréf um þetta og hvað væri hægt að gera. Hann hefur þó verið aðalhvatamaðurinn að því að geta náð í fleiri skemmtiferðaskip til Íslands, sem hefur verið mjög ánægjulegt á undanförnum árum, en er einmitt núna farinn að hafa áhyggjur af þessari umferð, ekki síst þarna á Hornströndum. Málið er að skemmtiferðaskip eða leiðangursskip sem koma til landsins eru náttúrulega alltaf tollskoðuð í fyrstu höfn. Það sem mér finnst að við þurfum að fara að gera er að vinna þannig að við setjum fólk ekki í land nema þar sem einhver aðstaða er fyrir hendi.

Þá vil ég minna á að á umhverfisþingi í október kom ungur og brattur maður, Gauti Geirsson minnir mig að sá ágæti maður heiti, sem var akkúrat með varúðarorð gagnvart Hornströndum, að við ættum að passa betur upp á friðlandið og hann vildi gjarnan stækka það svo að við gætum gætt betur að þessum hlutum.