145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

atgervisflótti ungs fólks.

[15:37]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Að því sem marki sem þessi athugasemd hv. þingmanns var skiljanleg þá var hún einfaldlega ekki rétt. Það eru tækifæri. Það eru að verða til fleiri störf á Íslandi, menntun og fjölbreytileg störf eru slík í samanburðinum við það sem gerist í löndunum í kringum okkur að það er engin ástæða til þess að menn þurfi yfirgefa Ísland af því að hér séu ekki tækifæri.

Ég skildi reyndar ekki alveg, virðulegur forseti, hvað hv. þingmaður var að fara, að einhver kafkaísk spilling og slíkt ylli því að fólk flytti úr landi. Það er auðvitað fásinna. Það sér það hver maður að í samanburði, enn og aftur við önnur lönd, jafnvel löndin sem fólk flytur til, er ekki hægt að tala um að á Íslandi sé meiri spilling, meira ójafnrétti, meiri launamunur eða slíkt. Nei, allar mælingar sýna að í öllum þessum atriðum standa Íslendingar einna best að vígi í samanburði þjóða, ekki bara í Evrópu heldur heimsins alls. Það breytir ekki því að þegar fólk langar (Forseti hringir.) að prófa að upplifa eitthvað nýtt þá hljóta stjórnvöld að vera reiðubúin að leyfa því það.