145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni.

158. mál
[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég sé að hv. þingmaður hefur enn áhyggjur af því að menn skuli ekki hafa nógu mikið svigrúm hér til að rífa byggingar og önnur mannvirki og byggja meira, nýrra og stærra en þær áhyggjur sem hv. þingmaður spyr þó sérstaklega um hér eru, held ég að mér sé óhætt að segja, eins og reyndar á við um hitt líka, algjörlega óþarfar.

Spurt er hvort ráðherra hyggist friða landsvæði sem innanlandsflugvöllurinn í Vatnsmýrinni er á o.s.frv. nái breyting á lögum um menningarminjar fram að ganga á þessu þingi. Í fyrsta lagi breytir það frumvarp sem vísað er í litlu um þá möguleika sem væru fyrir hendi á að friðlýsa þennan flugvöll. Þetta er reyndar áhugaverð hugmynd, sem ég verð að viðurkenna að mér hafði ekki dottið í hug, en maður ætti kannski að velta því fyrir sér að vissulega er Reykjavíkurflugvöllur stríðsminjar frá tíð seinni heimsstyrjaldarinnar. Hv. þingmaður skýtur hér að mér hugmynd um hvort ástæða kunni að vera til að vernda þær stríðsminjar. Ég á ekki von á því að flugvöllurinn verði friðaður á þann hátt eða hann leystur til ríkisins og minni á að ríkið á nú þegar stóran hluta landsins sem er undir Reykjavíkurflugvelli. Ég ítreka þó að þetta boðaða frumvarp breytir varla miklu um það.

Svo er líka rétt að geta þess að gamli flugturninn svokallaði á Reykjavíkurflugvelli er nú þegar friðlýstur samkvæmt ákvörðun ráðherra frá því í maí 2012. Það var að mínu mati góð ákvörðun hjá þáverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, enda er þarna um merkilegt mannvirki að ræða og hluta af sögunni eins og reyndar flugvöllurinn í heild er líka. Eins og ég segi á ég varla von á því að menn muni friða allan flugvöllinn sem menningarminjar en ég skal hugleiða þetta í framhaldi af ábendingu hv. þingmanns.

Hvað varðar svo möguleikana á því að taka mannvirki eignarnámi, og þar er líka spurt hvort líkur séu á að flugvöllurinn verði tekinn eignarnámi, ítreka ég það sem ég benti á áðan, að flugvöllurinn í Vatnsmýri stendur að verulegu leyti á landi sem er nú þegar í eigu ríkisins. Þetta ákvæði frumvarpsins er ekki hugsað út frá flugvellinum. Þetta frumvarp hefur reyndar verið lengi í vinnslu og unnið á grundvelli ábendinga frá þeim sem starfa við minjavörslu. Ég tel að greinin sem þarna er spurt sérstaklega um, um möguleikana á eignarnámi, snúist um það að það er mat ýmissa sem starfa í þessari grein, við vernd menningarminja, að upp hafi komið tilvik þar sem illa hafi verið farið með merkar menningarminjar, jafnvel minjar sem ríkið hefur sett verulegt fjármagn í. Dæmi eru um að settir hafi verið tugir milljarða í að gera upp og vernda slíkar minjar sem eru þar með í rauninni þjóðareign, en svo hafi komið upp álitamál varðandi eignarhald og jafnvel að þessi fjárfesting ríkisvaldsins í menningunni hafi að einhverju leyti farið forgörðum eða skemmdir verið unnar. Þetta er úrræði sem ég geri ráð fyrir að menn vilji hafa þarna inni svo hægt sé að beita því við slíkar sérstakar aðstæður en stjórnvöld beita að sjálfsögðu möguleikum á eignarnámi — þeir eru fyrir hendi nú þegar af ýmsum ástæðum — af mikilli varfærni, enda gilda sem betur fer mjög sterkar reglur um eignarrétt á Íslandi og þar af leiðandi möguleika ríkisvaldsins hvað sem líður þeirri grein sem hér er spurt um eða öðrum greinum sem heimila eignarnám við einstakar aðstæður. Möguleikar ríkisins á að nýta slíkar greinar eru afar takmarkaðir.