145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni.

158. mál
[15:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Heiða Kristín Helgadóttir) (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra sitt sniðuga svar því að ég held að við vitum bæði að ég er ekki að stinga upp á því að ráðuneyti hans friði flugvöllinn, langt því frá. Ég vil að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni því að ég tel það gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir Reykjavík og þar með landið allt. Úr því að talið berst að skyldum má nefna að Reykjavíkurborg ber skylda til að reka sig með hagkvæmum hætti og borgin getur ekki rekið sig með hagkvæmum hætti nema hún fái tækifæri til að þétta byggðina þannig að til dæmis sé hægt að reka almenningssamgöngur með hagkvæmum hætti og að fólkið sem býr í borginni geti rekið sig með hagkvæmum hætti og til dæmis freistað þess að nýta ekki einkabílinn öllum stundum í allt þó að hann sé ágætur.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að Reykjavíkurborg þróist. Hvernig sér hann fyrir sér þróun byggðar hér ef hún á ekki að verða samkvæmt samþykkt aðalskipulags fyrir svæðið þar sem flugvöllurinn er nú? Ég held að það sé mjög mikilvægt að sýn forsætisráðherrans liggi fyrir vegna þess að bæði það frumvarp sem ég vísa í hér, þó að það sé bara í drögum, og önnur frumvörp sem hafa komið fram og ýmsar hugmyndir hafa verið þannig að ég er bara full efa um að forsætisráðherra gangi í takt við þær stefnur og strauma sem Reykjavíkurborg fylgir. Mér finnst það vont og ég mundi vilja meira og betra samtal okkar á milli um þetta og skýrari sýn.