145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni.

158. mál
[15:51]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Við erum hér komin í umræðu um aðeins annað mál en efnt var til í upphafi, en allt í lagi með það. Hv. þingmaður segist efast um að ég gangi í takt við þá stefnu og strauma sem Reykjavíkurborg fylgi í skipulagsmálum. Ég get svo sannarlega staðfest að ég geng ekki í takt við þá stefnu sem borgin hefur innleitt. Menn hafa mikið notað orðið græðgisvæðing í íslenskri þjóðmálaumræðu um aðdraganda efnahagshrunsins. Ég veit ekki hvað er hægt að kalla það annað en græðgisvæðingu þegar borgaryfirvöld í Reykjavík reka stefnu sem beinlínis ýtir undir þenslu í mjög afmörkuðum hluta borgarinnar, miðsvæðis, ýtir undir það að hið gamla og smáa víki og að í staðinn komi sem flestir og ódýrastir fermetrar þar sem loftið gengur kaupum og sölum fram og til baka og stöðugt er lagt ofan á það hærra og hærra gjald og vonast eftir fleiri og fleiri fermetrum þannig að á endanum er borgin í rauninni að útdeila gríðarlegum verðmætum til þeirra sem eru reiðubúnir að ganga mest á byggðina sem fyrir er.

Það er stefna sem ég mun ekki ganga í takt við, virðulegur forseti, þannig að það er ánægjulegt að fá tækifæri til að árétta það hér eftir fyrirspurn hv. þingmanns.