145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

trygging fyrir efndum húsaleigu.

313. mál
[15:56]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningar hennar til mín.

Fyrsta spurningin. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spyr hvort ég telji breytinga þörf á lagaramma um tryggingarfé eða annars konar tryggingu sem leigusalar geta krafist af leigjendum íbúðarhúsnæðis á almennum markaði.

Ég get sagt það hér að ég tel svo vera, en í frumvarpi til laga um breytingar á húsaleigulögum sem ég hyggst leggja fram á Alþingi á næstu dögum eru lagðar til tilteknar breytingar á ákvæðum húsaleigulaga um þær ábyrgðir og tryggingar fyrir réttum efndum leigusamnings sem leigusali getur krafist af leigjanda.

Ég legg þó ekki til að gerð verði breyting á þeirri hámarksfjárhæð tryggingarfjár sem unnt er að krefja leigjanda um. Því getur leigusali áfram að hámarki óskað eftir tryggingarfé sem nemur þriggja mánaða leigugreiðslum. Ég geri mér fulla grein fyrir að hámarksfjárhæð tryggingarfjár getur verið há fyrir leigjendur þegar litið er almennt til fjárhagslegra aðstæðna launafólks hér á landi og ég hef samúð með því. En þar vegast hins vegar á ólík sjónarmið leigjenda og leigusala. Leigusalar hafa gagnrýnt hámarksfjárhæðir í ljósi þess að ef leigusamningi er rift en leigjandi yfirgefur ekki leiguhúsnæðið og það þarf að fara í útburðarmál þá taka slík mál lengri tíma en þrjá til fjóra mánuði. Því dugar jafnvel hámarksfjárhæð tryggingarfjár ekki til að standa straum af leigugreiðslum greiði leigjandi ekki leigu meðan á útburðarmáli stendur þar til útburður fer fram.

Ég met það svo að hæfilegt sé að leigusalar geti takmarkað tjón sitt sem nemur þriggja mánaða leigugreiðslum að teknu tilliti til þess að oft getur verið um að ræða háar fjárhæðir. Að þessu sögðu tel ég jafnframt brýnt eins og kom fram frá samvinnuhópi um framtíðarskipan húsnæðismála og verkefnisstjórn að skoða hvaða leiðir eru færar til að flýta fyrir aðfarargerð þegar þær aðstæður eru uppi að leigjandi stendur ekki við leigusamning og neitar að yfirgefa hið leigða húsnæði í kjölfar riftunar.

Í fyrirspurninni er jafnframt spurt hvort ég telji fyrirhugaðar breytingar á húsaleigulögum að þessu leyti fullnægjandi til þess að frjáls leigumarkaður geti þróast á þann veg að fólk eigi raunhæft val um að vera á leigumarkaði.

Meginmarkmið frumvarpsins um breytingar á húsaleigulögum er að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo komast megi hjá ágreiningi síðar. Hins vegar er lögð áhersla á að um frjálsa samninga er að ræða milli leigusala og leigjenda en við viljum setja ákveðinn lagaramma fyrir samningsgerð.

Ég tel hins vegar mikilvægt að tryggja betur eftirlit með íslenskum leigumarkaði og því er lagt til í frumvarpinu að úrlausnir kærunefndar húsamála í málum sem lúta að gerð og framkvæmd leigusamninga verði bindandi fyrir aðila máls.

Þá er jafnframt spurt í fyrirspurn hv. þingmanns hvort ég telji að lágtekju- og millitekjufólk eigi raunhæfan kost á að inna af hendi margra mánaða fyrirframgreiðslu á húsaleigu miðað við meðalverð húsaleigu á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt er spurt um aðrar leiðir til að koma til móts við eða aðstoða fólk sem á ekki rétt í félagslega húsnæðiskerfinu og á hvorki fé fyrir útborgun í eigin húsnæði né hárri kröfu um tryggingarfé vegna leiguhúsnæðis.

Ég er meðvituð um að hámarksfjárhæð tryggingarfjár getur numið háum fjárhæðum eins og var farið hér í gegnum og líka hjá hv. þingmanni. Hins vegar er þó áfram gert ráð fyrir í húsaleigulögum öðrum ábyrgðum og tryggingum sem leigjendur geta boðið, svo sem bankaábyrgð, sjálfskuldarábyrgð þriðja aðila og leigugreiðslu- og viðskilnaðartryggingu frá tryggingafélagi.

Þá eru í því frumvarpi sem mun koma hér fram á næstunni þau nýmæli að leigusala, sem er lögaðili í atvinnuskyni og leigir út atvinnuhúsnæði, þar á meðal sveitarfélög, verði heimilt að krefjast þess að leigjandi greiði mjög hóflegt gjald í svokallaðan samtryggingarsjóð leigusala í stað hefðbundinnar tryggingar. Gert er ráð fyrir að gjaldið geti numið innan við 10% af mánaðarlegu leiguverði og sé greitt við upphaf leigusamnings og hugsanlega árlega ef samningar eru ótímabundnir eða við endurnýjun samninga.

Þessi nýi valkostur ætti að koma sér vel fyrir leigjendur enda er gert ráð fyrir að gjaldið sé mjög hóflegt. Jafnframt ættu leigusalar, að minnsta kosti stærri leigufélög sem eru með marga leigjendur, að sjá sér hag í því að nýta þennan valkost þar sem ætla má að umsýsla tengd tryggingum og ábyrgðum sé nánast engin. Félagsstofnun stúdenta hefur svipað fyrirkomulag en leigjendur greiða þar 4 þús. kr. gjald við gerð og eftir atvikum endurnýjun leigusamnings og gjaldið rennur í sjóð sem þjónar sama tilgangi og framangreindur samtryggingarsjóður.

Þá er það von mín, sem tengist spurningu hv. þingmanns og viðbót, að frumvarp um nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi og frumvarp til laga um almennar íbúðir sem ég hyggst jafnframt leggja fram hér á næstunni, leiði til aukins framboðs leiguhúsnæðis á viðráðanlegu verði fyrir efnaminni leigjendur. Ég tel líka að frumvarp til laga um húsnæðisbætur muni leiða til aukins húsnæðisstuðnings til leigjenda sem aftur ætti að leiða til þess að leiga verði raunhæfari kostur fyrir Íslendinga. Þá má benda á, sem tengist viðbótarspurningu hv. þingmanns, að þar er einmitt verið að horfa til þess að gera breytingar á frítekjumörkum og útvíkka þann rétt sem hefur verið til staðar í núverandi lagaumhverfi.