145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

niðurstöður og úrbótatillögur í skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum.

335. mál
[16:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir þessa mikilvægu spurningu sem hún bar upp. Ég hef einnig beint ýmsum spurningum til hæstv. velferðarráðherra sem tengjast þessu máli. Það eru til gríðarlega miklar rannsóknir og mikil þekking á því hvernig fatlaðar konur eru beittar ofbeldi þannig að hinar fræðilegu þekkingu vantar ekki, það er ágætlega vel kortlagt.

Það sem er hins vegar aðalatriðið í mínum huga er það sem hæstv. ráðherra sagði sjálf að rannsóknir sýna að ofbeldi þrífst best í aðgreindum úrræðum. Þess vegna saknaði ég þess úr svari hæstv. ráðherra að settar séu fram konkret tillögur um það hvernig stjórnvöld geta komið að því að færa fatlað fólk úr hinum sérgreindu úrræðum til þess að það geti lifað venjulegu lífi eins og annað fólk í samfélaginu. Þannig held ég að við verðum að taka á málinu til þess að ofbeldið fái ekki þrifist.