145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

biðlisti vegna greiningar á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD).

318. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er stutt síðan við stóðum hér og ræddum þetta sama mál en þá þann hluta er lýtur að börnum. Það var mjög ánægjulegt að rétt áður höfðu borist upplýsingar um aukin fjárframlög til Þroska- og hegðunarstöðvar sem vonandi mun verða til bóta fyrir íslensk börn.

En ég kem hér til að ræða greiningar á fullorðnu fólki. Það er sérstakt ADHD-teymi starfrækt á Landspítalanum og nú í október biðu um 630 manns greiningar hjá því teymi. Samkvæmt upplýsingum þaðan er meðalfjöldi nýrra tilvísana 35 á mánuði undanfarna 18 mánuði en ADHD-teymið annar einmitt um 35 einstaklingum á mánuði. Það þýðir að ekki saxast á biðlistana og miðað við útreikninga mína á því þarf manneskja sem fær tilvísun til teymisins að bíða í 17 mánuði eftir skimun og svo greiningu.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um að það er erfitt að vera með ógreint ADHD og margt fullorðið fólk hefur rekist á margar hindranir í lífinu vegna aðstæðna sinna. Því er mikilvægt að fólk fái greiningu og lyf eða aðra meðhöndlun til að geta tekist á við daglegt líf án stórkostlegra hindrana.

Ég er með fjórar spurningar til ráðherra. Sú fyrsta er þessi: Er ráðherra kunnugt um að fleiri en 600 fullorðnir einstaklingar bíða greiningar og meðferðar vegna athyglisbrests með ofvirkni? Hvað telur ráðherra viðunandi biðtíma eftir greiningu fyrir börn annars vegar og fullorðna hins vegar? Hvaða vinna er í gangi í velferðarráðuneytinu til að bregðast við þeim bráðavanda sem við blasir vegna biðtíma eftir greiningu og meðferð vegna athyglisbrests með ofvirkni hjá fullorðnum? Hvaða vinna er í gangi við að skilgreina betur ferlið frá skimun til endanlegrar greiningar, þar með talið verkaskiptingu stofnana, svo að einstaklingar í leit að aðstoð, foreldrar barna eða fullorðnir, þurfi ekki að finna út sjálfir hvar hjálp er að fá og lenda á biðlistum í hverju skrefi?

Fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir hvert það á að fara. Það er alls ekki augljóst. Það eru margir mánuðir, jafnvel ár, sem fólk bíður í óvissu en lifir við þær hindranir sem gera því erfiðara fyrir að fást við verkefni daglegs lífs.