145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

biðlisti vegna greiningar á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD).

318. mál
[16:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beinir til mín fjórum spurningum eins og kom fram í ræðu hennar. Ég ætla að reyna að svara þeim eftir bestu getu og föngum.

Í fyrsta lagi spyr hún hvort mér sé kunnugt um að fleiri en 600 fullorðnir einstaklingar bíði greiningar og meðferðar vegna athyglisbrests með ofvirkni. Því er fljótsvarað: Já, mér er kunnugt um að rúmlega 600 einstaklingar bíða eftir þjónustu ADHD-teymisins sem greinir athyglisbrest og ofvirkni. Áður en ítarleg greining á ADHD hefst fer fram skimun fyrir ADHD og um 50% þeirra sem hafa farið í skimun hjá ADHD-teymi Landspítalans hafa við þá vinnu ekki verið taldir hafa þörf fyrir ítarlega greiningu þar sem ekki sé um ADHD að ræða.

Í öðru lagi spyr þingmaður hvern ég telji viðunandi biðtíma eftir greiningu fyrir börn annars vegar og fullorðna hins vegar. Auðvitað gæti maður sagt að best væri að biðtíminn væri enginn, en landlæknir hefur sett fram viðmið um biðtíma eftir ýmissi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Að áliti embættis landlæknis ætti bið eftir sérfræðiþjónustu ekki að vera lengri en þrír mánuðir. Vissulega væri slíkt æskilegt. Þetta fer þó ekki alveg saman við álit Landspítala – háskólasjúkrahúss sem telur ásættanlega bið eftir greiningu meðal fullorðinna vera á bilinu sex til átta mánuði. Sá sem hér stendur er ekki í færum til að greina og gera upp á milli sjónarmiða fagfólks sem um þessi mál hefur fjallað.

Í þriðja lagi spurði hv. þingmaður hvaða vinna sé í gangi í velferðarráðuneytinu til að bregðast við bráðavanda sem við blasi vegna biðtíma eftir greiningu. Þá vil ég nefna að fyrr á þessu ári var gerður samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítalans um þjónustu við fólk vegna gruns um athyglisbrest með ofvirkni. Samningurinn tekur til ítarlegrar greiningar fyrir 180–210 fullorðna einstaklinga og hópmeðferð í hugrænni athyglismeðferð sem er fyrir 20–30 einstaklinga á tólf mánaða tímabili. Biðlistar eftir greiningu fullorðinna, eins og hv. þingmaður nefndi, hafa ekki lengst að undanförnu. Þeir hafa heldur ekki styst. Til að stytta biðlistana þyrfti að grípa til tímabundinna úrræða til að vinna þá niður.

Að lokum var spurt hvaða vinna væri í gangi við að skilgreina betur ferlið frá skimun til endanlegrar greiningar, þ.e. með tilliti til verkaskiptingar stofnana, svo að einstaklingar í leit að aðstoð, foreldrar barna eða fullorðnir, þurfi ekki að finna út sjálfir hvar hjálp er að fá og lendi á biðlista í hverju skrefi. Embætti landlæknis er að hefja athugun á greiningu á ofvirkni með athyglisbresti, bæði hjá börnum og fullorðnum, og væntanlega kemur eitthvað út úr slíkri vinnu og slíkri greiningu. Til viðbótar því hef ég undirbúið og það er í startholunum að setja á laggirnar starfshóp til að fara yfir þetta heildrænt varðandi börnin því að þetta snertir líka menntakerfið. Þá vil ég líka nefna að við bíðum eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á þessum málum. Ég bind vonir við að niðurstaða þeirrar úttektar muni gefa okkur gagnlegar upplýsingar um það hvernig við getum látið hlutina ganga betur en hingað til hefur gengið. Varðandi fullorðna einstaklinga hefur Landspítalinn sett vel skilgreind verkferli frá tilvísun læknis, skimun og að lokum greiningu.

Ég hef í þessum orðum mínum tæpt á svörum við þeim fjórum spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín í þessu efni.