145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

biðlisti vegna greiningar á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD).

318. mál
[16:31]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og fyrirspurn og þakka líka hæstv. ráðherra svör hans. Ég hvet hann eindregið áfram til að beita sér af fullum dampi í þessu máli til að reyna að leysa þennan vanda sem er greinilega gríðarlega mikill.

Eins og kom fram í fyrirspurn minni til hans um daginn um svipuð mál hvað varðar börn þá er þetta ein mesta heilsuógn og vá sem steðjar að nútímasamfélagi, ekki síst vegna þess að það hefur áhrif á svo ofboðslega marga aðra þætti. Við þekkjum öll fólk sem hefur átt í vandræðum með geðröskun og hefur fengið bót sinna meina eftir greiningu og meðferð. Það verður að segjast eins og er að það er gríðarlegur ávinningur fyrir íslenskt samfélag ef hægt er að koma fólki í greiningu og meðferð sem fyrst. Margir hafa mátt þola hörmungar í lífi sínu. Ég hef kynnst fólki sem hefur fengið meðferð, bæði lyfjameðferð og hugræna atferlismeðferð, og það er með ólíkindum hvað það hefur mikil og góð áhrif á líf þess.

Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að vinna áfram að þessum málum af fullum dampi.