145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

biðlisti vegna greiningar á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD).

318. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstvirtur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra innilega fyrir greinargóð svör.

Ég tek undir með hv. þm. Páli Val Björnssyni að þetta er mjög brýnt mál. Ekki einasta skiptir þetta gríðarlegu máli fyrir lífsgæði þeirra sem í hlut eiga heldur skiptir þetta samfélagið í heild sinni miklu máli. Mjög margir sem enda í fangelsi eru með ógreint ADHD. Eins fólk sem leiðist út í alvarlega fíkniefnaneyslu og færi ekki aðstoð og leitast við að deyfa vanlíðan sína. Þau eru ýmis samfélagsmeinin þar sem orsökin er vangreint og vanmeðhöndlað ADHD.

Varðandi biðtímann. Við sjáum af báðum þessum viðmiðum, þótt mér finnist þriggja mánaða viðmiðið landlæknis hið eðlilega viðmið enda fer hann með eftirlitsskyldu í heilbrigðiskerfinu, að við erum langt frá þeim. Það þarf að gera betur. Það þarf tímabundið að setja meiri peninga í þetta.

Síðan held ég að ráðherra ætti að kanna hvort ástæða sé til að koma á ADHD-teymi á Norðurlandi til að þjónusta norðaustursvæðið, þá á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Ég vil hvetja ráðherra til þess að hafa ADHD-samtökin með í þeim starfshópi sem á að fara yfir þetta heildrænt. Þar brennur á. Þau samtök þekkja auðvitað best hvað þýðir að lifa við ógreint ADHD og hvar skórinn kreppir helst í þessum málum.

Annars vil ég aftur þakka fyrir greinargóð svör og lofa hæstv. ráðherra fullum stuðningi í vinnu að þessum málum.