145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ímynda mér að við öll sem sitjum á þingi höfum áhyggjur af þeirri þróun sem má greina úr búferlaflutningum, þ.e. þeim sem flytja frá landinu miðað við þá sem flytja til landsins. Það eru ákveðin teikn á lofti um að ungt fólk sé að velja það að flytja frá landinu. Þetta var tekið hér upp í fyrirspurnatíma í gær og vissulega er rétt að það er eðlilegt að ungt fólk sæki sér menntun og reynslu út fyrir landsteinana, en við sem erum í ólíkum flokkum á þingi hljótum að vilja kappkosta að Ísland verði áfram eftirsóknarverður staður til að búa á fyrir unga fólkið okkar, fyrir framtíðarfólkið okkar.

Á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var samþykkt stefna í málefnum ungs fólks sem miðast við þessa stöðu. Mig langar að velta því upp hvort hv. þingmenn séu ekki sammála mér um að það sé löngu tímabært að endurskoða lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það hefur verið á þingmálaskrá hæstv. menntamálaráðherra frá því ríkisstjórnin tók til starfa en hvorki hefur heyrst né sést til þeirrar endurskoðunar, ekki neitt.

Fæðingarorlofssjóður. Síðasta ríkisstjórn var búin að taka ákvörðun um að lengja fæðingarorlofið en hún var afturkölluð eins og margt annað sem síðasta ríkisstjórn gerði, meira af meinbægni en nokkru öðru, og skipaður hópur 5. desember 2014 sem átti að gera stefnu fyrir Fæðingarorlofssjóð. Þetta er eitt mikilvægasta málið fyrir ungt fólk, að það geti upplifað öryggi þegar það vill koma sér upp fjölskyldu. En þessi starfshópur hefur ekki skilað af sér. Við fengum fregnir um það í september að til stæði að hækka þakið. Það bólar ekki á neinum tillögum, hvorki við 1. né 2. umr. fjárlaga um þessi mál.

Hvað með húsnæðismálin, herra forseti? Það er nú hitt. Fólk vill komast í nám. Fólk vill geta eignast börn og lifað almennilegu lífi. Fólk vill geta komið sér upp þaki yfir höfuðið. En húsnæðismálin, það bólar ekki á þeim enn þá, herra forseti. Þau mál sem ættu að vera forgangsmál allra flokka á Alþingi í því hvernig við ætlum að byggja upp samfélagið (Forseti hringir.) eftir erfið ár þannig að ungt fólk vilji velja sér Ísland til búsetu, eru ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Ég (Forseti hringir.) skora á hv. þingmenn að setja þau á dagskrá.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna