145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í gær fékk fjárlaganefnd breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við fjáraukalagafrumvarpið og fjárlagafrumvarpið og eins og oft er þá er spenna í loftinu þegar breytingartillögurnar koma fram vegna þess að ýmsu er bætt við.

Fjárlagafrumvarpið virðist ekki vera tilbúið þegar það er lagt fram á haustin því síðan koma miklar breytingar. Það sem við lendum í er að við erum þá komin með gögn í hendur sem eru útprentuð. Það ríkir ekki trúnaður á þeim gögnum en samt eru þau ekki opinber. Við erum svarandi fjölmiðlum sem vilja helst að við tökum myndir af þessum pappírum eða föxum eða ljósritum og komum til þeirra.

Mér finnst þessi staða ekki boðleg. Á sama tíma er formaður fjárlaganefndar að upplýsa um hvað er í þessum breytingartillögum á sinni facebook-síðu. Eflaust hefði ég mátt gera það líka. Mér fannst það ekki vera í mínum verkahring að láta fjölmiðla fá þær upplýsingar og beindi fjölmiðlum á Alþingi, en þær eru ekki til á rafrænu formi.

Ég óska eftir því að gerðar verði breytingar á þessum vinnubrögðum. Annaðhvort eru þessar upplýsingar trúnaðarmál og þá er það þannig eða þetta eru opinber gögn og þá eiga allir að hafa aðgang að þeim á sama tíma.

Ég sá það í fjölmiðlum að sumir hefðu náð í skottið á einhverjum, eða hvernig sem það er, og birt upplýsingar á meðan aðrir voru að eltast við fólk eins og mig sem vissi ekki hvort ég mætti gefa þetta upp eða ekki. Mér fannst það ekki heldur vera í mínum verkahring.

Þannig að ég óska eftir því að tekið verði á þessu. Ég veit ekki við hvern er að sakast, hvort það er formaður nefndarinnar eða hæstv. forseti eða yfirstjórn Alþingis. En þetta er ekki boðlegt. Þegar breytingartillögur koma til 3. umr. þá verður að ráða bót á þessu. Þessi gögn eiga að vera rafræn og aðgengileg á ákveðnum tíma.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna