145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir tók stórt upp í sig í kvöldfréttum í RÚV í gær um fjárhagsstöðu Landspítalans þegar hún sagði, með leyfi forseta: „Þannig að þetta er nú komið á býsna góðan stað svona miðað við hvað var búið að tæta spítalann niður á síðasta kjörtímabili.“

Hv. þingmaður treystir á skammtímaminni kjósenda enda hefur það oftar en ekki gagnast Framsóknarflokknum ansi vel. Landspítalinn átti hvorki fyrir launum starfsmanna né lyfjum haustið 2008 eftir hrunið og var kominn í greiðsluþrot. Þannig lýsir, með leyfi forseta, Hulda Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, ástandinu á spítalanum haustið 2008. Þetta var eftir áralanga stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í svokölluðu góðæri þegar Landspítalinn var keyrður niður að hungurmörkum. Það var þrotabú margra ára sveltis núverandi stjórnarflokka sem blasti við fyrri ríkisstjórn ofan á hrikalegar afleiðingar hrunsins sem Landspítalinn jafnt og aðrar stofnanir í þjóðfélaginu þurfti að glíma við. Hallinn á rekstrinum á spítalanum var þá 3 milljarðar.(Gripið fram í.)

Með óeigingjörnu og samstilltu átaki starfsfólks Landspítalans með þáverandi stjórnvöldum tókst að vinna á vandanum hægt og bítandi með það að leiðarljósi að Landspítalinn fengi að njóta þess ef efnahagur landsins batnaði.

Nú horfum við á 22 milljarða afgang ríkissjóðs, en Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir um fjárlagafrumvarpið að það skorti ekki aðeins fé til sóknar á sjúkrahúsinu heldur líka til óbreytts reksturs.

Hvað er í gangi? Það eru kaldar kveðjur sem formaður fjárlaganefndar (Forseti hringir.) sendir heilbrigðisstarfsfólki Landspítalans sem hefur beðið eftir að hagur spítalans verði bættur eftir óeigingjarnt starf. (Forseti hringir.) En nú er verið að keyra allt aftur í einkavæðingu. Tekinn upp þráðurinn frá fyrri tíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðiskerfinu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna