145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til þess að minnast þess að núna þessa dagana eru tvö ár liðin frá því að mótmælin á Euromaidan-torginu í Kiev í Úkraínu hófust og mig langar til þess að tengja það við okkur hér á Íslandi sem höfum staðið okkur vel og ég vil bera lof á hæstv. utanríkisráðherra hvað hann hefur staðið vel í því standa á bak við fullveldi Úkraínu í þeim deilum öllum.

Um þessar mundir og í kjölfar árásanna í París heyrast æ fleiri raddir um að Ísland ætti að loka sig af og hætta að vera hluti af jörðinni þótt það þyki nú vísindalega sannað að við erum hluti af jörðinni og hluti af alþjóðasamfélaginu.

Ég vil benda á að þrátt fyrir að Ísland sé lítið þá höfum við oft getað beitt okkur til góðs fyrir opnu, frjálslyndu og framsæknu samfélagi, ekki bara á okkar litlu eyju heldur líka víðar á jörðinni. Þess er skemmst að minnast að í febrúar á næsta ári verða 25 ár liðin frá því að Ísland var fyrst landa til þess að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltslandanna og það er gott dæmi um það hvernig lítil smáþjóð getur beitt sér.

Ísland á að vera í fararbroddi radda sem berjast fyrir frelsi og lýðræði í heiminum. Það hvernig við höfum komið fram gagnvart Úkraínu er góð áminning um það. Við eigum líka að gera það litla sem við getum til þess að leggja lóð á vogarskálarnar þegar kemur að hinum stærri vandamálum og þá er ég sérstaklega að hugsa um vanda flóttamanna. Við eigum ekki að láta áhyggjur af öryggi og hysteríu sem viðgengst í hinum vestræna heimi stoppa okkur af í því að gera vel, (Forseti hringir.) þó svo að við eigum auðvitað að gæta öryggis okkar eins og við getum.


Efnisorð er vísa í ræðuna