145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þingstörfin líða áfram og senn líður að 2. umr. um fjárlög ársins 2016. Allir flokkar og flestir þingmenn eru líklega á fullu við það að skoða hvort og þá hvaða breytingar eigi að gera á þeim milli umræðna og móta þannig það samfélag sem við búum okkur hér á landi.

Í fjárlögum ársins 2016 er boðað að lífeyrir almannatrygginga muni hækka um 9,4% frá 1. janúar 2016, ekki frá því í vor eins og á almennum vinnumarkaði og hjá fleiri aðilum. Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á að kjör lífeyrisþega hafi versnað á undanförnum árum og að launabilið á milli lífeyrisþega og launþega hafi aukist gríðarlega. Algengt er að fólk sem hefur einungis lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins sér til framfærslu hafi á bilinu 170–190 þús. kr.

Í nýrri Gallup-könnun kemur fram að meira en 90% landsmanna segjast ekki geta lifað af svo lágri framfærslu. Í sömu könnun kemur einnig fram að 95% landsmanna telja að lífeyrisþegar eigi að fá jafn háar eða hærri krónutöluhækkun en lægstu launþegar. En þið, hv. þingmenn, teljið þið ykkur geta lifað á þeim upphæðum sem örorkulífeyrisþegar hafa? Þeir sem ekki telja sig geta það hljóta að koma með í þá vegferð að breyta fjárlögum næsta árs. Áskorun til þingmanna sem samþykkt var á fjölmennum fundi ÖBÍ á laugardag er ágætis byrjunarpunktur fyrir þá vinnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna