145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Sjaldan er góð vísa of oft kveðin, stendur einhvers staðar, og ég ætla að halda áfram að tala um málefni eldri borgara og öryrkja sem ég hóf máls á í gær í óundirbúinni fyrirspurn til forsætisráðherra. Það geri ég eftir að hafa setið fund á laugardaginn hjá Öryrkjabandalaginu á Grand Hótel þar sem farið var yfir þessi mál og hvernig þau standa hjá þessum hópi fólks.

Ég nefndi líka í ræðu minni í gær ræðu hæstv. forsætisráðherra á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í Vogum á Vatnsleysuströnd á laugardaginn þar sem hann tíundaði þá góðu stöðu sem Ísland er í. Það er í sjálfu sér hægt að taka undir margt sem hann sagði þar, ýmislegt hefur áunnist. Hér er bullandi hagvöxtur, minnkandi atvinnuleysi og verðbólga hefur aldrei verið jafn góð. Ræða hans innihélt það að hér væri allt í blóma.

Mér finnst holur hljómur í slíkri ræðu þrátt fyrir að margt gæti verið satt í henni, eins og ég sagði. Mér finnst hins vegar holur hljómur í henni ef við ætlum að skilja eftir enn einu sinni hóp öryrkja og eldri borgara. Það stendur meðal annars í stefnuyfirlýsingunni að ríkisstjórnin ætli síðast en ekki síst að afnema skerðingar sem hafa verið settar á atvinnutekjur og fjármagnstekjur aldraðra. Það var eitt af því. Og að við ætluðum að byggja upp fjölskylduvænt samfélag þar sem allir hefðu jöfn tækifæri og sérstaklega skyldi hlúa að þeim sem á aðstoð þyrftu að halda.

Ég tel borð fyrir báru í íslenskum ríkisbúskap í dag að koma til móts við kröfur eldri borgara og öryrkja og þá ályktun sem samþykkt var á fundinum á laugardaginn og ég tíundaði hér í gær.

Ég trúi ekki öðru en að við tökum á þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra sagði í seinna svari sínu í gær að hann vonaðist til þess að það gæti orðið sem best samstarf í þinginu milli stjórnar og stjórnarandstöðu við vinnu fjárlaganefndar í framhaldinu um að taka á þessum vanda. Ég trúi því að hann meini það að við tökum á þessum vanda í eitt skipti fyrir öll og færum þessum hópum (Forseti hringir.) þá jólagjöf að þeir standi jafnfætis okkur hinum í samfélaginu.


Efnisorð er vísa í ræðuna