145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að bregðast fljótt og vel við beiðni um sérstaka umræðu um starfsumhverfi lögreglunnar.

Fyrir örfáum dögum samþykktu lögreglumenn nýgerðan kjarasamning með miklum semingi. Ég fagna samþykkt kjarasamningsins en tel að atkvæðagreiðslan um samninginn og niðurstöður hennar hafi leitt mjög vel í ljós þann þunga og miklu alvöru sem býr með lögreglumönnum vegna starfa sinna og starfsaðstöðu. Að lokinni samningagerð er því brýnt að huga að öðrum atriðum er varða störf og aðstöðu lögreglunnar sem mest. Það má segja að við höfum sagt A með samningum og vilyrði fyrir aukinni menntun stéttarinnar. Nú þarf að segja B. Þar ber fyrst að nefna mannafla lögreglunnar, búnað, vald og rannsóknarheimildir.

Það er óþolandi staða fyrir alla að lögreglumönnum á vakt skuli hafa fækkað um rúmlega 80 á milli áranna 2007 og 2011 á sama tíma og íbúum landsins fjölgaði um 40 þúsund, ökutækjum á vegum landsins um 49% og nota bene hefur aksturskílómetrum lögreglubíla fækkað um 35% á sama tíma, ferðamönnum hefur fjölgað um hundruð þúsunda ár hvert á þessum sama tíma. Ferðamenn valda álagi hvarvetna um landið og gæta þarf öryggis þeirra víða þar sem þeir ferðast með bílaleigubílum sem aldrei fyrr, ásamt því að erfitt er lögreglumönnum að taka á móti þeim fjölda sem ratar um landið með skemmtiferðaskipum. Ljóst er að fækkun í hópi lögreglumanna hefur dregið úr þjónustu við borgara landsins og gesti. Fækkunin hefur líka haft í för með sér mjög aukið álag á þá lögreglumenn sem enn eru að störfum og þetta ástand hefur leitt til aukinna veikinda þeirra og fjölgunar vinnuslysa auk þess sem öryggi lögreglumanna er minna en áður sökum þess að þeir eru oftlega einir á ferð.

Það er rétt að geta þess að heilu landsvæðin eru nú án löggæslu, samanber Dalabyggð. Það má líka geta þess að meðan mestu fjárskerðingar til lögreglunnar áttu sér stað má segja að hluti uppsafnaðs halla lögregluembættisins á höfuðborgarsvæðinu hafi verið vegna þess ástands sem skapaðist árið 2009 þegar lögreglan stóð og varði þetta hús og þá sem voru hér inni. Það er sárt til þess að vita að enn skuli ekki vera búið að leiðrétta þetta.

Þær 500 milljónir sem bætt var í málaflokkinn eftir að núverandi ríkisstjórn kom að völdum, m.a. fyrir frumkvæði Framsóknarflokksins, komu sér mjög vel. Þær 400 milljónir sem nú eru boðaðar, og ég vissi reyndar ekki um þegar ég bað um þessa umræðu, eru ágætisbyrjun en betur má ef duga skal. Þær skila okkur hugsanlega tæplega hálfa leið. Von mín og bæn er því sú að enn verði bætt í við málaflokkinn því að mikið er í húfi.

Ég hef áður rætt þjónustu við landsmenn og gesti en ljóst er að stórefla þarf landamæragæslu, jafnvel taka upp landamæraeftirlit eins og Schengen-samkomulagið heimilar. Þar má ekki gleyma hlut tollgæslunnar þar sem stórkostleg fækkun hefur átt sér stað á sama tíma og farþegum fjölgar um fleiri hundruð þúsund. Það vantar 150–200 milljónir strax á Keflavíkurflugvöll og Seyðisfjörð, sem skila sér vonandi inn í fjárlög sem nú eru til meðferðar. Ég heiti á alla að gera þá nauðsynlegu breytingu að veruleika.

Það eru ýmsir brotaflokkar sem hafa setið á hakanum vegna þess að lögreglan hefur ekki komist til þeirra, samanber eftirlit með mansali, heimilisofbeldisverkefni eru í uppnámi og rannsóknir kynferðisbrota virðast ekki vera jafn vandvirkar og nauðsynlegt er. Það skortir líka á auknar heimildir til lögreglunnar til símhlerana og forvirkra rannsókna. Það er óþolandi að þrjótar komist upp með brot vegna einhvers ímyndaðs ótta um að auknar rannsóknarheimildir lögreglu bitni á borgurunum með einhverjum hætti.

Síðast en ekki síst má nefna öryggisviðbúnað. Það kom fram í skýrslu fyrrverandi innanríkisráðherra frá 2008 að vöntun er á öllum búnaði sem snýr að öryggisviðbúnaði. Það er vöntum á brynjum, skjöldum, skotfærum o.fl. Við skulum hafa í huga að við Íslendingar höfum ekki her. Lögreglan er það eina sem stendur á milli okkar borgaranna og glæpamanna sem hafa farið mikinn í Evrópu undanfarið. Engin ástæða er til að ætla að við Íslendingar förum varhluta af slíkum ógnaratburðum. Evrópa er í baráttu við glæpamenn sem skýla sér á bak við trú, sem þeir hafa ekkert með að gera, og fara sínu fram með ofbeldisverkum hvar sem þeir komast og fá tækifæri til. Við þurfum að gyrða fyrir það að (Forseti hringir.) slíkir ógnaratburðir verði hér á landi með öllum tiltækum ráðum.