145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum rætt það oft hér á undanförnum vikum hversu fækkun í röðum lögreglumanna hefur vegið að öryggi okkar sem þjóðar og hversu alvarleg staðan er orðin víða í almennri löggæslu og getu lögreglunnar til að sinna störfum sínum.

Það var slæmt að sjá hversu lengi dróst að ganga frá kjarasamningum við lögreglumenn og fagnaðarefni að því er loksins lokið. Það er okkur mikilvægt að lögreglan búi við fullnægjandi starfsaðstæður og njóti fullkomins búnaðar eftir því sem þörf krefur.

Ég vil vegna umræðunnar um vopnavæðingu lögreglunnar og það sem hér hefur verið rætt í því sambandi hrósa hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa birt reglur um valdbeitingarheimildir og vopnareglur lögreglunnar. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur öll að það sé gagnsæi um þessar reglur. Leynimakkið sem hefur verið í kringum þær sögulega séð er engum til góðs og satt að segja stórhættulegt fyrir öryggi borgaranna.

Það er mjög mikilvægt líka við þær aðstæður sem ríkja nú í hinum vestræna heimi að hrapa ekki að ályktunum. Ekkert hefur komið fram á síðustu vikum sem á að kalla á almenna vopnvæðingu lögreglu á Íslandi. Þvert á móti sýna rannsóknir nú fram á að almenn vopnvæðing lögreglu ali af sér aukinn vopnabúnað meðal afbrotamanna og þá getur skapast hættulegur og skelfilegur vítahringur. Ég held þess vegna að lykilboðorðið að þessu leyti sé að meta hættu af fullri einurð og ákveðni en ekki ofmeta hana (Forseti hringir.) og ekki hrapa að ályktunum að órannsökuðu máli.