145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á grundvelli jafnræðis verður að tryggja jafnan rétt borgaranna hvar sem er á landinu til sambærilegrar löggæslu og öryggis eftir því sem hægt er. Þess vegna tel ég albrýnast að við fjölgum almennum lögreglumönnum sem sinna hefðbundnum störfum, útköllum og almennu eftirliti og bæta um leið almennan aðbúnað og þjálfun sem því tengist. Í mínum huga er mikilvægt að lögreglan sé sýnileg og sem allra víðast og að fólk finni raunverulega að lögreglan sé til staðar þegar á þarf að halda og bregðist fljótt við gagnvart fólki í neyð.

Mér þykir líka mikilvægt að styðja betur við Lögregluskólann enda viljum við hafa fólk í þessu starfi, sem hefur traustan og faglegan grunn svo að það sé fært um að greina meðal annars áhrif af geðrænum vandamálum, fíkniefnanotkun o.fl. Það er líka mikilvægt þegar kemur að endurmenntun í verklegri þjálfun á ýmsum sviðum, svo sem í fyrstu aðgerðum, mannfjöldastjórnun og öðrum sérhæfðum lögregluaðgerðum.

Ég dreg heldur ekki úr því að afar mikilvægt er að styrkja hlutverk lögreglunnar sem snýr að rannsóknarvinnu og stytta þann tíma sem tekur að vinna að og upplýsa brot. Bent hefur verið á að ýmis búnaður sé orðinn gamall og illa nothæfur sem kemur niður á gæðum rannsókna. Það er alveg ótækt og við verðum að bregðast við því.

Samfélagið gerir kröfu um hraða málsmeðferð óháð því hvers konar mál er um að ræða hverju sinni, hvort sem það eru minni háttar mál eða skipulagðari afbrotamál sem eru að verða sífellt umfangsmeiri í starfi lögreglunnar.

Burt séð frá umræðunni um öryggisbúnað lögreglumanna er ljóst að fari lögreglan að vopnbúast munu glæpamennirnir gera það líka. Það skapar bara hættulegra og ofbeldisfyllra samfélag í stað þess að veita borgurunum vernd.

Tillaga er nú um að setja inn fjárveitingu fyrir næsta ár að undangenginni úttekt á þjónustu- og öryggisstigi sem fara á fram á í hverju lögregluumdæmi og er það vel, en á sama tíma skýtur það skökku við að gera kröfur til lögreglunnar um að greiða til baka uppsafnaðan halla. Um 82% af fjárheimildum lögreglu fer í launagreiðslur. Það sér hver heilvita maður að það gengur ekki upp þegar 18% fjármagns er til ráðstöfunar í allan annan rekstur að ætlast til að hallinn sé líka greiddur.

Virðulegi forseti. Hlutverk lögreglunnar er að skapa öryggiskennd (Forseti hringir.) í samfélaginu með sýnileika og nærveru, stuttum viðbragðstíma í útköllum og faglegum vinnubrögðum vel þjálfaðra (Forseti hringir.) lögreglumanna og til þess þarf að búa vel að lögreglunni (Forseti hringir.) bæði í launum og aðbúnaði.