145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:27]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa tímabæru umræðu. Umræða um slæm starfsskilyrði lögreglunnar hefur verið hávær að undanförnu, en reyndar er það ekki í fyrsta sinn. Í raun má segja að það hafi verið rauður þráður í þjóðfélagsumræðunni í áratug eða áratugi. Oft hefur verið þörf á að bæta starfsskilyrðin en sjaldan eða aldrei eins nauðsynlegt og nú. Það er því sérstakt fagnaðarefni að tillaga um viðbótarfjárveitingu í málaflokkinn upp á um 400 millj. kr. skuli líta dagsins ljós við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins.

Staðan er grafalvarleg. Lögregluþjónum á vakt hefur fækkað til muna, sem þýðir að ekki er hægt að sinna öryggi borgaranna sem skyldi. Í nýlegri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra segir að lögreglan á Íslandi telji sig ekki geta spornað við uppgangi skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi vegna fjárskorts og manneklu. Þar segir jafnframt að lögreglan á landsbyggðinni telji sig ekki geta haldið uppi ásættanlegu öryggisstigi sökum fjárskorts.

Árið 2006, fyrir tíu árum, var gerð greining á mannaflaþörf lögreglunnar og var þá talið að hún væri um 900 manns. Núna eru lögreglumenn um 640 talsins að sögn yfirlögregluþjóns. Þetta er verulegt umhugsunarefni.

Í Fréttablaðinu í gær kom fram að lögreglan væri svo illa búin tækjum að endurnýjun þeirra væri háð velgjörðarfélögum. Íslenska lögreglan er aðhlátursefni erlendis, sagði í sömu grein. Oft er lögreglan gagnrýnd fyrir seinagang í viðbrögðum og eins þegar kemur að rannsóknum einstakra mála. Það er auðvelt að gagnrýna en það fer minna fyrir leitinni að ástæðum þess hvernig komið er.

Sem betur fer eru menn að vakna til vitundar um nauðsyn góðrar löggæslu en það er ekki nóg að tala fallega, efndir þurfa að fylgja orðum. Því er þetta viðbótarframlag stjórnarmeirihlutans sem formaður fjárlaganefndar kynnti í gær og innanríkisráðherra minntist á hér áðan fagnaðarefni og vísbending um að haldið verði áfram á sömu braut.