145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[15:01]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka enn úr þessum ræðustól að samgöngur eru heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál og menningarmál. Af sömu ástæðu eru almenningssamgöngur mikilvægar auk þess að vera liður í að tryggja félagslegt réttlæti og þróun samfélaga jafnt í þéttbýli og dreifbýli. Þess vegna er mikilvægt að hafa heildarsýn á málaflokkinn og líta á almenningssamgöngur í landinu sem eina heild. Því miður byggja þær fjárveitingar sem nú er varið til málaflokksins ekki á nauðsynlegri heildarsýn. Það er skynsamlegt, eins og gert var, að fela heimamönnum á hverju svæði umsjón með almenningssamgöngum á landi en við verðum samt að hafa heildarsýn á málaflokkinn.

Á það að vera forgangsmál að tengja samgöngur á landi, í lofti og á sjó? Viljum við setja einhverjar lágmarkskröfur um að hægt sé að komast hringinn um landið með almenningssamgöngum eða milli tiltekinna punkta á höfuðborgarsvæðinu? Er hægt að leita ódýrari lausna fyrir minni staði en þá þéttbýlli? Er hægt að samþætta þjónustu í dreifbýli sem ekki á við í þéttbýli? Hvert er umhverfismarkmiðið með almenningssamgöngum? Þetta tel ég vera lykilatriði.

Ég vil að lokum taka heils hugar undir með málshefjanda. Við verðum að skapa framtíðarsýn sem er sameiginleg fyrir landið allt og nota þau tæki sem við eigum til þess, þ.e. svæðisskipulag og landskipulag. Þannig getum við náð þeim árangri sem við þurfum.