145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[15:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með mörgum sem hér hafa talað að því fylgja margvíslegir kostir ef hægt er að gera almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu að raunhæfari kosti fyrir fleiri en nú er. Ég ætla ekki að draga úr mikilvægi þess.

Ég ætla heldur ekki að draga úr því að eðlilegt er að á meðan samningur er í gildi milli ríkisins og Reykjavíkurborgar, um sérstakt framlag til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, sé hann efndur af ríkisins hálfu og mikilvægt að árangurinn af því starfi sé metinn reglulega. Ég verð þó að taka það fram að þegar samningurinn var gerður á sínum tíma hafði ég ákveðnar efasemdir um þá forsendu fyrir samningnum að á meðan væri stærri framkvæmdum í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu slegið á frest. Hvað sem líður góðum hug og góðum áformum um uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu þá tel ég að taka verði eftir sem áður tillit til þess hver veruleikinn er. Veruleikinn er sá að mjög stór hluti og ég leyfi mér að segja yfirgnæfandi hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins nýtir sér einkabíl. Það þarf auðvitað að taka tillit til þess við uppbyggingu samgöngumála. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Ég leggst hins vegar ekki gegn því að menn fylgi þessum samningi eftir sérstaklega ef menn geta sýnt fram á árangur á þessu sviði en ég bið menn að hafa í huga að veruleikinn er sá að stór hluti landsmanna, þar á meðal þeir sem búa á suðvesturhorninu, nýtir sér einkabíl og fyrir þann hluta er einkabíllinn raunhæfasti kosturinn. (Gripið fram í.)