145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[15:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í samgönguáætlun 2011–2022 er rætt um almenningssamgöngur í tengslum við öryggi í samgöngum, umhverfislega sjálfbærni og jákvæða byggðaþróun. Samgönguáætluninni til stuðnings voru á síðasta kjörtímabili samþykktar breytingar á lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi. Vegagerðinni var þá gert mögulegt að veita sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga einkaleyfi til að skipuleggja og sjá um almenningssamgöngur. Samtök sveitarfélaga tóku verkefninu fagnandi og lögðu mikla vinnu í að skipuleggja samgöngukerfi á milli sveitarfélaga og til höfuðborgarsvæðisins. Það voru því mikil vonbrigði þegar Vegagerðin afturkallaði einkaleyfi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum á leiðinni milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur í desember 2013. Í framhaldi þess fór Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum í mál við Vegagerðina vegna samningssvika.

Í frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi var lagt til að arðbærar leiðir yrðu færðar frá sveitarfélögunum til einkaaðila en óarðbærar leiðir yrðu skildar eftir hjá íbúunum. Þar með var tryggt að almenningur nyti ekki arðseminnar í bættum almenningssamgöngum. Þar með voru áætlanir um góðar almenningssamgöngur sem stæðu undir sér endanlega komnar út um þúfur. Má enn gera ráð fyrir því að það standi til að fara þá leið sem íbúar Suðurnesja hafa nú einir þurft að láta yfir sig ganga? Þeir þurfa að bera kostnaðinn af óarðbæru leiðinni en einkaaðilinn nýtur arðsins af einu arðbæru leiðinni sem hefði getað staðið undir traustu almenningssamgöngukerfi á svæðinu. Það er því erfitt að trúa því að nokkur þingmaður geti stutt slíka aðför að hag þeirra sem þurfa að treysta á almenningssamgöngur eða hafni því öryggi og þeim umhverfislega ávinningi sem fylgir traustum og tíðum almenningssamgöngum um land allt.