145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[15:16]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Heiðu Kristínu Helgadóttur, fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég tek eindregið undir málsstað hennar. Það er náttúrlega nauðsynlegt að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég reiði mig sjálf á almenningssamgöngur og hef gert síðan ég var barn. Það hefur ekki alltaf gengið greiðlega enda línurnar jafn mismunandi og þær eru margar.

Ég velti fyrir mér hvernig væri hægt að stuðla að því að gera almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu eðlilegri og venjulegri farkost. Nú eru nemakortin fyrir háskóla- og menntaskólanema töluvert dýr, þ.e. 46.700 kr. sem er stór útgjaldaliður, sérstaklega ef um eingreiðslu er að ræða fyrir nemendur. Ég man þá tíð þegar þetta var töluvert ódýrara eða um helmingurinn af þessu verði, þ.e. 20 þúsund sem er töluvert betra verð fyrir þessa þjónustu. Ég vil að við veltum því fyrir okkur hvort við getum ekki einhvern veginn komið til móts við háskóla- og menntaskólanemendur með því að greiða niður þennan útgjaldalið fyrir námsmenn og hugsanlega fleiri ef þess er óskað.

Ég sé ekkert á móti því að alþingismenn taki sig til og reyni að nota strætó eins mikið og mögulegt er. Það er alla vega þannig í Evrópuþinginu að þingmenn þar fá frítt í strætó og almenningssamgöngur í allri Belgíu til þess að vega einfaldlega upp á móti einkabílnum. Hann er allt of mikið notaður og hann er óumhverfisvænn. Við þurfum að normalísera það að nota strætó. Það á að vera „kúl“.