145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er bæði eðlileg og málefnaleg krafa þegar um umdeilt þingmál er að ræða sem miklar skoðanir eru á og er mikið kappsmál viðkomandi ráðherra að ráðherrann sé viðstaddur umræðuna um það. Fyrir því er rík þinghefð og það kveður enn frekar að því nú þegar við erum að upplifa það að ríkisstjórnin hefur engin önnur mál en akkúrat þetta. Að sá ráðherra sem það ber fram og virðist vera eini talsmaður málsins í stjórnarliðinu, þar fyrir utan, sýni þinginu þá virðingu að eiga við það orðastað um málið og sé hér til andsvara og til þátttöku í umræðunni. Ég tek undir með þeim sem hér hafa gert athugasemdir við að málið sé tekið til umræðu að ráðherra fjarstöddum og tel einfaldlega eðlilegt að beðið sé heimkomu hans.