145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er enginn úr stjórnarmeirihlutanum í salnum og enginn var í hliðarsal þar til nýlega, nú situr þar hv. 1. þm. Reykv. s. Þess vegna velti ég fyrir mér hvers vegna við ættum að sitja hér og tala um þetta mál þegar enginn er til andsvara. Það er alveg ljóst að það er ýmislegt að þessu máli og enginn, hvorki í meiri hluta né minni hluta, virðist hafa áttað sig á því til hvers það er lagt fram. Það læðist að mér sá grunur að þetta ástand sé einkenni málaþurrðarinnar hjá ríkisstjórn sem veldur því að við hreinlega höfum ekkert annað að ræða hérna. En þá ættum við líka að vera heiðarleg varðandi það og ekki vera að funda ef við höfum ekkert að tala um.

Það er nóg annað sem þingið gæti verið að gera. Við gætum til dæmis sett fleiri sérstakar umræður á dagskrá. Við gætum haft ýmsar sérstakar umræður, kannski ekki síst um þingsköp ef út í það er farið. (BirgJ: Þingmannamál.)