145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel einfaldlega að málið sé þannig vaxið að einhver þurfi að taka þátt í umræðunum af hálfu stjórnarmeirihlutans og útskýra það. Ég flutti hér langa ræðu á síðasta þingi um málið og setti fram fjölmargar spurningar m.a. um þá breytingu á stefnu sem felst í því að minnka aðkomu Alþingis að eftirliti og stefnumörkun í málaflokknum, sem þó var þverpólitísk samstaða um árið 2008. Þeim sjónarmiðum er ekki svarað í greinargerð með frumvarpinu, sem nýbúið er að leggja aftur fram. Þeim sjónarmiðum er ekki svarað í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.

Ég hlýt að þurfa að eiga hér orðastað við hæstv. utanríkisráðherra í fyrstu ræðu minni um þetta mál sem ég get flutt hér í dag, um þessa þætti, og fá einhver svör. Það verður að vera einhver umræða í þingsal um málið. Það er ekki hægt að hunsa sjónarmið sem fram koma og svara þeim ekki. Talsmenn málsins, talsmenn stjórnarmeirihlutans, verða að færa rök fyrir máli sínu og svara athugasemdum sem (Forseti hringir.) settar eru fram.