145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að taka undir þá ósk að fundi verði frestað þar til hæstv. ráðherra kemur hingað til þingsins. Mér finnst það reyndar alveg ótrúleg óbilgirni að þetta sé þriðji þingdagurinn þar sem ræða á málið án þess að hæstv. ráðherra sé viðstaddur, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið kallað eftir því að hann sé við umræðuna og bent hafi verið á að það eru ýmsar spurningar sem til hæstv. ráðherra hefur verið beint sem okkur langar að fá svör við.

Ég vil líka taka undir með þeim sem hafa furðað sig á dagskrá fundarins í dag. Það hefði verið hægt að hafa allt önnur mál á dagskrá og komast hjá þeim leiðindum að ræða endalaust um fundarstjórn.