145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það vekur auðvitað undrun í ljósi þess að við störfum á Alþingi sem er málstofa. Hér er ætlast til þess að við skiptumst á skoðunum, færum rök fyrir ólíkum skoðunum. Það hefur lítið verið um það í þessu máli, það verður að segjast eins og er, í ljósi þess að málið snýst ekki um, þótt svo virðist á yfirborðinu, um einfalda breytingu á stofnanagerð heldur er þetta utanríkispólitísk ákvörðun sem verið er að taka hvað varðar eina af grunnstoðum íslenskrar utanríkisstefnu, sem er þróunarsamvinna. Og þetta frumvarp er lagt fram á sama tíma og við sjáum fram á enn metnaðarlausari markmið en áður voru boðuð í áætlunum um framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og það er ekki nema fullkomlega eðlileg krafa að við ætlumst til þess að fá samtal um málið. Þetta er utanríkisstefna Íslendinga, herra forseti, og það ætlar enginn að vera hér og svara fyrir þessar breytingar. Það finnst mér metnaðarlaust eða benda til þess að sannfæringin sé ekki meiri en þetta stjórnarmegin fyrir málinu. Þá ætti Alþingi Íslendinga að fara að hugsa sinn gang.