145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er talað um fjarveru utanríkisráðherra meðan þetta mál er rætt. Það er alveg rétt, hann hefur ekki verið hér en óskað hefur verið eftir nærveru hans. Ég segi hins vegar: Það er ekki nægjanlegt fyrir mig að hann komi hingað, sitji í sæti sínu og taki ekki þátt í umræðum. (Gripið fram í: Rétt.) Það sem verra er er að nefndarmenn í utanríkismálanefnd, fyrir utan formanninn sem situr hér núna, hafa heldur ekki verið hér.

Það er þannig að stjórnarmeirihlutinn, sem ber þetta mál fram, hefur rætt þetta mál við 2. umr. í tíu mínútur. Það var skrifað nefndarálit hv. formanns nefndarinnar sem hér var flutt. Önnur umræða hefur ekki átt sér stað við stjórnarþingmenn.

Ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð í nefndinni. Á fundi, þegar umsagnarfresti var lokið, var óskað eftir að menn kæmu til að ræða málið. Og hvað boðaði þá 1. varaformaður nefndarinnar? Jú, það væri allt í lagi að halda fund og boða gesti í fyrramálið en málið yrði tekið út þá. Það skipti engu máli hvað gestir hefðu fram að færa til málsins.

Það eru gerðar miklar athugasemdir við málið, í umsögn til utanríkismálanefndar, sem mér sýnist meiri hlutinn ekki hafa tekið tillit til. Meiri hlutinn verður að svara fyrir það hér á Alþingi. Hvað segir hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir um þetta mál? Þetta er hroðvirknislega unnið í utanríkismálanefnd.