145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Lýðræðið virkar með þeim hætti að meiri hlutinn ræður að lokum. Minni hlutinn hefur hins vegar sinn rétt og sá réttur er nokkuð vel mótaður í óskrifuðum hefðum þingsins en líka beinlínis í lögum. Minni hlutinn á að fá tóm til þess að rannsaka mál og partur af því er til dæmis að fá að fara yfir umsagnir og ræða við þá sem að veita umsagnirnar.

Þetta er fyrsta málið í minni 25 ára sögu hér sem það fékkst ekki í öllum tilvikum. Síðan hefur verið bent á að í hluta umsagnanna, m.a. þeim hluta sem ekki fékkst að taka sérstaklega fyrir í nefndinni, eru beinlínis bornar brigður á að farið sé með rétt mál í greinargerð með frumvarpinu. Þá er það bara einn maður sem getur staðið fyrir því máli fyrst það fékkst ekki rætt í nefndinni. Það er ekki hv. formaður utanríkismálanefndar. Það er sá sem ber ábyrgð á greinargerðinni. Það er hæstv. ráðherra. Þess vegna þarf hann að koma hér til umræðunnar, vera við hana alla. Ég tel reyndar að það eigi að fresta þessari umræðu (Forseti hringir.) þangað til að þeir sem hafa borið fram lögmætar spurningar og eru með lögmæta fjarveru eigi kost á því að koma og ræða við hæstv. ráðherra.