145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram ábending þess efnis að við gætum verið að tala um frumvarp um opinber fjármál. Það er stórt, viðamikið og áhugavert efni sem alla vega enginn hugmyndafræðilegur ágreiningur er um og væri vel til þess fallið að við ræddum hér.

Hér hafa fallið orð um að þetta sé vanvirðing við þingið. Ég vil meina að þetta sé líka vanvirðing við áhorfendur vegna þess að áhorfendur eiga núna að hlusta á okkur endurtaka það sem við höfum margsinnis sagt um þetta mál í síðustu viku og þar áður án þess að heyra einhver andsvör, án þess að heyra einhver mótrök frá stjórnarliðinu eða auðvitað hæstv. utanríkisráðherra.

Hvernig væri það, virðulegi forseti, ef áhorfendur settu á Alþingisrásina eða horfðu á Alþingi á netinu af áhuga í stað þess að vera alltaf að horfa á eitthvað svona dagskrár-„fiff“ sem er ekki rökrétt með hliðsjón af því hvert hlutverk þingsins er? Hlutverkið er að rökræða mál og það er ekki hægt að rökræða eitthvað einn og sér á báti. Það þarf tvo í það minnsta.