145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað bara skandall að við séum hérna á þriðja degi að ræða þetta mál, þetta er dagur þrjú í þessu máli, og að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki viðstaddur umræðuna og það hafi ekki verið betur undirbúið af hæstv. forseta að tryggt væri að ráðherra væri við umræðuna.

Þegar ég tók þátt í 1. umr. og reyndar líka í 2. umr. var hæstv. ráðherra þó viðstaddur 1. umr. Ég man að þá óskaði ég eftir því að ráðherra kæmi til svara og bar upp þá von mína að þetta ömurlega mál mundi sofna svefninum langa í nefnd eins og málið um brennivín í búðir. Og ég óska þess enn því þetta er illa hugsað, vanhugsað mál og það er verið að brjóta niður þessa merku stofnun og troða henni (Forseti hringir.) undir ráðherrastól ráðherra.