145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:59]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við þá dagskrá sem liggur fyrir. En mig langar að benda á það, vegna þess að við verðum auðvitað að vona að menn vilji vera sanngjarnir, að það er ekki rétt og ekki satt að ekki hafi verið fjallað um málið með eðlilegum og hefðbundnum hætti í utanríkismálanefnd. Það er bara ekki rétt og ekki satt. Málið kom óbreytt inn á þetta þing aftur núna, hefur samtals verið rætt í um 30 klukkustundir í þessum sal, á 12 fundum nefndarinnar. Það var venjulegur og hefðbundinn umsagnarfrestur. Öllum var send beiðni um að veita umsagnir, sem var gert áður. Allir þeir sem sendu inn umsagnir að þessu sinni komu fyrir nefndina, allar beiðnir um gesti til nefndarinnar voru samþykktar. Það er því ekki rétt að reyna að halda því fram — við getum tekist á um málið, við getum jafnvel tekist á um þá staðreynd að hæstv. utanríkisráðherra er ekki hér — en það er ekki rétt og ekki satt að málið hafi ekki fengið eðlilega og hefðbundna meðferð í utanríkismálanefnd. Ég vildi halda því til haga og það var ekki ágreiningur um það. Þó svo að sannarlega væri ekki samstaða um málið í utanríkismálanefnd þá var ekki (Forseti hringir.) ágreiningur um það í nefndinni að málið færi úr nefnd.