145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það eru sannarlega engin hagkvæmnisrök sem liggja til grundvallar því að leggja ÞSSÍ niður. Það eru engin fagleg rök heldur. Lagaramminn utan um þessa stofnun er tiltölulega nýlegur. Hann var settur árið 2008, ef ég man rétt. Það er ekki að fullu og öllu leyti komin heildarreynsla á hvernig hann nýtist sem umgjörð fyrir stofnunina. Hitt liggur alveg klárt fyrir að á vegferðinni síðan 2008 hefur ÞSSÍ stöðugt verið að batna. Hún hefur fengið lof innan lands og hvarvetna utan lands. Til hennar hefur verið leitað sem fordæmis um nýmæli sem hún hefur bryddað upp á og gert að þungamiðju í sínu starfi af stórum stofnunum miklu stærri þjóða eins og þeirri stofnun í Þýskalandi sem fer með þróunarsamvinnu. Menn leita sem sagt fordæma í stofnun Íslendinga sem starfar á þessu sviði. Það segir sitt um gæði stofnunarinnar.

En gott og vel. Ekkert á að vera heilagt og það á alltaf að skoða hlutina. Verum krítísk. Í þessu tilviki hefði kannski verið gott að fá augu utan að til að skoða stofnunina. Það var gert þegar sú ríkisstjórn sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sátum í sótti um aðild fyrir Íslands hönd að DAC-nefndinni, þróunarsamvinnunefnd OECD, þá var gerð úttekt. Það er kannski það sem hluti deilunnar snýst um núna. Einu rökin sem eru tilnefnd í greinargerð með frumvarpinu eru þau að í áliti DAC-nefndarinnar þá hafi komið fram ábending, ummæli, í þá veru sem bentu til að það væri rétt að breyta fyrirkomulaginu. Þetta er allt saman tóm vitleysa, margrakin hér. Og meira að segja augu utan að, augu umsagnaraðila, Alþýðusambands Íslands, benda á að þetta er rangt. Þá spyr maður sig: Hvað á að segja um vinnubrögð (Forseti hringir.) af þessu tagi og getur hv. þingmaður í krafti sinnar reynslu fundið einhverja skýringu á því af hverju menn rembast svona eins og rjúpan við þennan margkýlda staur? Það eru engin rök fyrir þessu. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir — þegar hún mælti fyrir meirihlutaálitinu, og var spurð um álit á starfsemi stofnunarinnar — lauk lofsorði á hana líka. Allir hafa gert það. Hvað eru menn þá að gera hér?