145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:55]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega því miður svo sorglegt að það er ekki sjáanlegt að nokkur skapaður hlutur geti réttlætt þessa ákvörðun, síst af öllu aðferðin við það hvernig á að troða þessu með þjósti í gegnum þingið án eðlilegra efnistaka af hálfu þingsins. Það er náttúrulega líka alveg yfirgengilegt og mjög uggvekjandi, það vekur manni hálfgerðan ótta að sjá hvernig fram er gengið í þessu máli.

Eins og margoft er komið fram hefur þessi stofnun staðið sig ljómandi vel og verið hrósað í hástert fyrir starfsemi sína og starfshætti. Vissulega koma ákveðnar athugasemdir í úttekt sem gerð er af fulltrúa Rauða krossins en við skulum ekki gleyma því sem á hefur verið bent af stjórnsýslufræðingum meðal annars, að Rauði krossinn telst nú ekki alveg hlutlaus aðili og á kannski hagsmuna að gæta. Það hefði verið æskilegt, með fullri virðingu fyrir úttektaraðilanum, af stjórnsýslulegum vanhæfnisástæðum að fela einhverju öðrum að gera þá úttekt. Það hafa verið gerðar úttektir á starfsemi stofnunarinnar sem ganga út á að hún sé vel rekin, vel starfrækt og faglega haldið utan um málaflokkinn. Eins og fram er komið hefur ekki tekist að sýna fram á nokkurn sparnað, ekki faglegan ágreining, ekki pólitískan ágreining, enda útilokað að hann geti verið til staðar vegna þess hvernig um utanríkismál af þessu tagi er búið. Þetta er með öðrum orðum algerlega óskiljanlegt og mjög óheillavænlegt skref, mundi ég halda. Það er mjög á kostnað faglegra sjónarmiða að ætla að draga mál með þessum hætti inn í pólitíska deiglu í ráðuneytinu þar sem er í raun allt annar kúltúr en er utan um málaflokkinn innan sjálfstæðrar stofnunar.