145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef í fyrri ræðum mínum um málið lagt fram nokkrar spurningar til formanns utanríkismálanefndar og líka til ráðherrans en hef ekki fengið svör við þeim enn. Ég vil ítreka þær og vísa þar í fyrri orð mín sem hægt er að finna á vefnum og óska eftir því að þeim orðum verði svarað. Þau fólust að mestu leyti í því að við höfum verið að reyna að finna leiðir til að reyna að lenda málinu, þannig að menn skapi ekki ófrið um þennan mikilvæga málaflokk.

Mér finnst í umræðunni hjá stjórnarliðum, þeim örfáu sem hafa talað, menn gleyma einhvern veginn að ræða af hverju við erum að þessu. Við erum að þessu til að hjálpa fólki, fólki sem býr við hungur og skort á grunnréttindum og skort á aðgengi að vatni. Um það snýst þetta allt saman. Mér finnst menn taka því mjög létt og vera einhvern veginn tilbúnir til að beita þeim vinnubrögðum sem voru rædd áðan til að ná því markmiði að setja málaflokk af þessu tagi í uppnám.

Ég vil þess vegna fá svör við því hvers vegna það er gert með þessum hætti. Ég vil líka að varaformaður nefndarinnar, sem hér er inni, og formaður nefndarinnar útskýri það fyrir mér hvernig þær réttlæta það fyrir sjálfum sér að viðhafa vinnubrögð af því tagi sem lýst hefur verið hér; að umsagnarfresti í málinu er lokið 14. október, 15. október er reglulegur fundartími og þá er málið tekið til umfjöllunar, 16. október er haldinn fundur á óhefðbundnum tíma og málið rifið út.

Formaður nefndarinnar kemur hér upp og segir, að mínu mati í algjörri andstöðu við þingsköp, að það sé vegna þess að málið hafi verið fullrætt á síðasta þingi. Ja, heyr á endemi, ef þetta fara að verða vinnubrögðin hér, virðulegi forseti.

Ég held að kenna þurfi þá nefndarformönnum eitthvað í þingsköpum vegna þess að þar segir að mál falli niður milli þinga og það beri að taka þau aftur upp. Að auki var þriðjungur nefndarmanna nýr og enn fremur var ekki fjallað um allar þær umsagnir sem sendar voru til nefndarinnar og það sjáum við í fundargerðum.

Virðulegi forseti. Vinnubrögðin í málinu eru fyrir neðan allar hellur. Menn ætla að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, málaflokk sem hefur ríkt mikil og góð samstaða um frá því að heildarlöggjöfin var samþykkt á þingi árið 2008. Og með svona vinnubrögðum. Það segir mér bara eitt, hvað þessu fólki gengur til. Því gengur það eitt til að taka þessa fjármuni inn í ráðuneytið, grauta þeim saman við þá starfsemi sem þar er og svo hægt og rólega fjarar undan þróunarsamvinnu þegar fram líða stundir. Það er markmiðið. Skömm sé þeim sem svona standa að málum.

Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar: Eru þetta nýju vinnubrögðin og nýju stjórnmálin sem hún hefur boðað í fjölmiðlaviðtölum? Það örlar ekki á því að viðhaft hafi verið einhvers konar samráð, einhvers konar samtal eða nokkur skapaður hlutur í málinu. Því er trukkað hér í gegn í andstöðu við þingsköp og brotið er á réttindum þingmanna til að fjalla um málið með eðlilegum hætti. Það er skömm að því.

Ég ætla að segja eins og er, virðulegi forseti, að það mun fylgja þeim lengi ef þetta fara að verða vinnubrögðin í þinginu, þessi hroki og hallærislegheit sem eru í gangi og valdhroki. Mér fannst hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir segja rétta orðið áðan. Þetta er valdníðsla. Það eru þá kannski nýju stjórnmálin sem eftir allt saman voru boðuð af hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í blaðaviðtali eftir blaðaviðtal. Það er þá afhjúpað hér með gjörðum — orð og gjörðir, menn eru dæmdir af gjörðum sínum en ekki orðum. Vinnubrögðin eru sem sagt þessi, að þeim þykir eðlilegt að mál taki tvo daga í umfjöllun í nefnd. Þannig séu menn að uppfylla rannsóknarskyldur sínar, athuganir og yfirferð yfir flókin mál og stór.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að forseti fari vandlega yfir það (Forseti hringir.) með hvaða hætti fjallað var um málið og eigi síðan orðastað við forustu nefndarinnar um að svona vinni menn ekki og taki málið af dagskrá á meðan.