145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að verið sé að laska þennan málaflokk. Ég held að þeir sem gera slíkt með því að keyra mál svona áfram í mikilli andstöðu séu að gera það vegna þess að þeim sé alveg sama, þeir líti ekki á þetta sem málaflokk sem skipti einhverju máli. Það er kannski munurinn á okkur og þeim að fólkið sem tekur á móti þessari þróunarhjálp skiptir okkur máli, málið skiptir okkur máli.

Virðulegi forseti. Þegar hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kallaði hérna fram í áðan, undir ræðu minni, að það væri ekki sambærilegt að bera saman ef Vegagerðin yrði tekin inn í innanríkisráðuneytið — það sýnir að hv. þingmaður hefur ekki þekkingu á því sem fer fram í Þróunarsamvinnustofnun. Starfið þar er gríðarlega sérhæft eins og það sem er að gerast hjá Vegagerðinni. Þetta er gríðarlega sérhæfð starfsemi og viðkvæm. Það er ekki hægt að grauta saman framkvæmdinni á þessari sérhæfðu starfsemi við eitthvað annað. Þetta er fagsvið sem krefst mikillar sérþekkingar (Gripið fram í.) og það að líta svo á að það sé eitthvað minna eða léttvægara en annars konar starfsemi á vegum hins opinbera segir mér allt sem segja þarf um viðhorf framsóknarmanna til þessara mála. (Gripið fram í.) Það sem hv. þingmaður er að segja mér og okkur öllum er hversu léttvægt þeir líta á þróunarsamvinnu. Það er það sem mér þykir leitt í þessu máli.

Ef menn litu faglega og praktískt á þetta allt saman þá mundu þeir ekki gera þetta vegna þess að Ríkisendurskoðun hefur margítrekað í fyrsta lagi að þetta sé (Forseti hringir.) fyrirmyndarstofnun sem stenst alltaf fjárlög og í öðru lagi að framkvæmd og eftirlit eigi ekki að (Forseti hringir.) grauta saman eins og verið er að gera.