145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Samkvæmt þeim fréttum sem við höfðum af ferðalögum ráðherrans þá eru núna að verða liðnar tvær klukkustundir síðan hæstv. ráðherra lenti í Keflavík og það bólar ekki á honum hér. Hvernig ber að skilja það? Ætlar hæstv. ráðherra sem sagt að hunsa algerlega eindregnar og rökstuddar óskir um að hann mæti til þings, standi fyrir máli sínu og svari spurningum? Nú hefur ráðherrann enga afsökun. Hann er ekki á Ísafirði. Hann er ekki á Sauðárkróki. Hann er kominn til landsins. Hann hefur tekið við embættisskyldum sínum og nema hann sé ófær um það af einhverjum ástæðum að mæta til þings þá á hann að gera það. Nóg er nú samt, herra forseti.

Ef það er svoleiðis að ráðherrann kemur ekki þá er bara eitt að gera, það er að fresta umræðunni og gera ráðherranum ljóst að ekki verður hreyft við henni fyrr en hann er mættur í þingsalinn, ekki hreyft við henni. Mér er farið að þykja það alveg nóg, virðulegur forseti, hvernig hæstv. ráðherra hefur hegðað sér í þessu máli. Það er ekki líðandi, þingið má ekki líða það að það sé meðhöndlað með þessum hætti (Forseti hringir.) Það varðar sóma okkar allra sem á annað borð viljum þingræði í landinu að láta þetta ekki (Forseti hringir.) yfir okkur ganga. Ég mun fara að gera mjög alvarlega athugasemdir við forseta, (Forseti hringir.) hver sem það verður á stóli, ef á að halda þessu svona áfram.