145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Ég held að það sé rétt að forseti geri hlé á fundinum og kalli saman fund þingflokksformanna því það er mikilvægt að orð forseta Alþingis standist og hægt sé að treysta þeim orðum sem hann setur fram, bæði af forsetastóli og sömuleiðis á fundum með formönnum þingflokka. Það kom fram eins og rætt var fyrr í dag að hæstv. utanríkisráðherra kæmist ekki til umræðunnar fyrr en hann væri kominn til landsins, það væri á milli klukkan fjögur og fimm í dag. Nú er klukkan orðin fimm, hún er að verða hálfsex, og ekkert bólar á hæstv. utanríkisráðherra. Það verður að gera grein fyrir því hvers vegna þetta stenst ekki, hvers vegna þessi orð halda ekki, því menn verða að geta skipulagt störf sín út frá því sem sagt hefur verið á fundum forseta með formönnum þingflokka og því sem forseti hefur greint frá á forsetastóli.