145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst eiginlega hálfpínlegt að við séum að ræða fjarveru ráðherra. Það lá fyrir við upphaf þessarar umræðu að hann ætti að vera í húsi og hann er hér ekki. Mér finnst mjög pínlegt af hálfu hæstv. forseta að láta þessa umræðu halda áfram. Nær væri að gera hlé á þingfundi og fara yfir það síðar meir, eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði áðan, hvernig nákvæmlega samskiptum framkvæmdarvaldsins er háttað við löggjafarvaldið. Það er með öllu óviðunandi að þingmenn séu settir í þá stöðu að eiga að ljúka aðalumræðu um málið án þess að hæstv. ráðherra sé á staðnum. Það er líka algjörlega óviðunandi að einhverjar áætlanir sem gerðar hafa verið standist ekki. Það er eiginlega algjörlega óviðunandi, herra forseti, að verið sé að ræða málið á þennan hátt í þingsal. Það mun ekki verða til þess að auka virðingu þingsins.

Ég ítreka (Forseti hringir.) tillögu mína frá því fyrr í dag, herra forseti, um að það sé gert hlé þar til liggur (Forseti hringir.) fyrir að ráðherra sé í salnum. Þá er hægt að eiga almennilegan orðastað við hæstv. ráðherra.