145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er ekki bara einhver einstök tilfallandi fjarvera hæstv. ráðherra lengur. Þetta er orðið að prinsippmáli. Þetta er orðið að grundvallarspurningu um það hvort Alþingi ætli að láta bjóða sér dag eftir dag og viku eftir viku að ráðherra hunsi það með þessum hætti. Sómi Alþingis liggur við. Við þingmenn eigum að standa saman á slíkum stundum óháð stjórn og stjórnarandstöðu. Einhver verður að taka upp hanskann fyrir hlut þingsins í þessum efnum þegar svona er komið. Það er algerlega ólíðandi að halda þessari umræðu áfram fyrr en utanríkisráðherra er mættur í salinn. Þetta er kjörið tækifæri og brýnt tækifæri að nota til að kenna ráðherrunum mannasiði ef þeir kunna þá ekki.

Það á að slíta þessum fundi og segja ráðherra að ekki verði hreyft við þessu máli fyrr en ráðherra er mættur í salinn, fyrir nú utan það að hann á auðvitað að sinna þingskyldum sínum eins og allir eiga að gera nema þeir hafi lögmæt forföll.

Ráðherrum hafa áður verið kenndir mannasiðir við svona aðstæður. Eitt vorið fékk ónefndur ráðherra ekkert mála sinna (Forseti hringir.) afgreitt vegna þess að hann hafði sýnt Alþingi yfirgang og virðingarleysi. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að nafngreina hann. En þessa sögu kann ég mjög vel, herra forseti. Þá stóð Alþingi í lappirnar. Þá stóðu menn saman (Forseti hringir.) þvert á víglínur stjórnar og stjórnarandstöðu og siðuðu viðkomandi ráðherra til.