145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason eigi nú að koma hér í ræðustól og gangast við því að eitthvað hefur minnið skjöplast honum þegar hann var að rekja atburðarásina áðan. Það er búið að lesa hér upp úr fundargerðum utanríkismálanefndar, þar liggur þetta alveg skýrt fyrir. Við þurftum að beita sérstöku skjóli 2. mgr. 15. gr. þingskapalaga til þess að fá hluta af þeim gestum sem við vildum fá til fundar við nefndina, svo það liggi algjörlega ljóst fyrir. Rétt að rifja það upp líka fyrir hv. þingmanni sem hugsanlega var ekki staddur á þessum fundi að við buðum til samkomulags að það yrðu tveir fundir og málinu lokið í sátt. Því var hafnað. Við buðum þá að yrði einn fundur bak helgi, því var líka hafnað, bara svo það liggi alveg ljóst fyrir.

Þetta skiptir kannski ekki meginmáli. Í dag skiptir það meginmáli að í umsögnum komu fram staðhæfingar um að rangt væri farið með í greinargerð og við þurfum að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um það. Væri ekki hægt að leysa þessa deilu einfaldlega með því að fresta fundi þangað til hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) kemur? Hugsanlega er hann vant við látinn. Hugsanlega er hann þreyttur eftir ferðalög sín. Það er (Forseti hringir.) skiljanlegt að hann vilji halla sínu höfði heima áður en hann kemur til þings. En er þá ekki rétt (Forseti hringir.) að fresta þessari umræðu þangað til hann er úthvíldur?