145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil hér á þriðja degi, þegar við erum í 2. umr. að ræða niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, bjóða velkominn hingað í þingsalinn hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Braga Sveinsson. Við höfum ítrekað óskað eftir því að hann verði hér við umræðuna. Ég vil fara þess á leit við forseta að hann liðki fyrir á mælendaskrá svo að ráðherrann geti komið inn á hana og þá frekar ofar en neðar þannig að hann geti átt orðastað við okkur þingmenn um málið. Það er það sem við óskuðum eftir.

Ástæðan fyrir því að við óskuðum eftir hæstv. ráðherra hér í þingsal var ekki sú að við vildum að hann sæti hér og sinnti öðrum verkefnum, heldur að hann tæki virkan þátt í umræðunni. Það gerði hann ekki við 1. umr. heldur sat hér allan tímann og lokaði svo umræðunni með útúrsnúningum og svaraði engu þeim spurningum sem fyrir hann höfðu verið lagðar.

Ég óska mjög eindregið eftir því að hæstv. ráðherra láti svo lítið að eiga hér í samtali við okkur þingmenn um málið.