145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur að þessu leyti. Ég held að það væri mjög gott ef hæstv. ráðherra tæki þátt í umræðunni. Ég rakti hér fjöldamörg áhyggjuefni mín og athugasemdir sem ekki hefur verið reynt að svara í greinargerð frumvarpsins eftir að það var lagt fram á nýjan leik og ekki hefur verið svarað í áliti meiri hlutans. Mér finnst ekki fært, við þinglega meðferð málsins, að svör komi ekki fram um svona hluti. Hvernig á til dæmis að útfæra eftirlitið í 8. gr.? Hvernig á þetta að gerast? Hvað sér ráðherra fyrir sér?

Ég held að ef menn mundu vinna þetta mál aðeins betur væri hægt að ná miklu meiri sátt um það og um það gæti orði miklu meiri friður, og umræðan styst. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að taka virkan þátt í umræðunni og helst fara í andsvör við hvern einasta þingmann stjórnarandstöðunnar sem hér kemur upp. Ég er sannfærður um að það mun stytta umræðuna.