145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra getur haft hvaða skoðanir sem hann vill á ummælum okkar og ályktunum sem við drögum. Hitt er algjörlega klárt að hæstv. ráðherra hefur sýnt starfsmönnum ÞSSÍ kala. Hann hefur sýnt þeim lítilsvirðingu. Hann hefur ekki haft með þeim þá fundi sem þeir hafa óskað eftir. Ég rifja það upp að Ríkisútvarpið sá sérstaka ástæðu til þess að vekja eftirtekt á því að hæstv. ráðherra vildi ekki fá starfsmenn stofnunarinnar með sér þegar hann fór loksins til Afríku til að skoða framkvæmdir og verkefni á vegum stofnunarinnar.

Hæstv. ráðherra svaraði í engu þeim spurningum um þær dylgjur sem fram koma í greinargerðinni um tvíverknað, um að ÞSSÍ ynni ekki í takt við utanríkisstefnuna o.s.frv. Þetta hefur hann verið þráspurður um. Það komu heldur engin svör núna.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra bara einnar spurningar. Á fundi utanríkismálanefndar var staðhæft af starfsmönnum ÞSSÍ að þegar hann kallaði starfsmennina til sín og skýrði þeim frá ákvörðun sinni og þeir báðu um röksemdir þá hefði hæstv. ráðherra svarað: (Forseti hringir.) Ég þarf engar röksemdir. Ég vil að hæstv. ráðherra svari því hvort þetta er rétt eða rangt.