145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur aldrei gerst áður að hæstv. ráðherra, hver sem það hefur verið og gegnt því starfi í fortíðinni, hafi farið í slíkt ferðalag án þess að hafa með sér yfirmenn ÞSSÍ. Á þeim tímapunkti þótti ríkisfjölmiðlinum það vera fréttnæmt og það var beinlínis staðhæft að það væri vegna þess viðmóts sem hæstv. ráðherra bæri gagnvart starfsmönnum stofnunarinnar. Ástæðan virtist vera nokkuð einföld. Hún var sú að starfsmenn stofnunarinnar höfðu svarað hreinskilnislega spurningum sem við þingmenn höfðum spurt þá. Þeir höfðu sagt hug sinn. Það var alveg ljóst að það fór mjög illa fyrir brjóst hæstv. ráðherra.

Erfitt er að fara yfir allar þær spurningar sem maður gjarnan vildi spyrja og hæstv. ráðherra hefur fengið til sín en aldrei svarað. Eitt af því sem ég vil þó spyrja hæstv. ráðherra um er eftirfarandi. Enn og aftur kemur fram hjá honum að rökin fyrir niðurlagningu ÞSSÍ séu akkúrat ábending frá þróunarsamvinnunefnd OECD. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar leggur DAC-nefndin til að ÞSSÍ verði lögð niður?